top of page
Um okkur

Stofnendur og eigendur Sigursetursins eru þær Anna Dagbjört Hermannsdóttir og Jóhanna Helgadóttir. Þær eru báðar menntaðar grunnskólakennarar í grunninn. Anna hefur sérhæft sig í greiningum og sértækri íhlutun. Jóhanna hefur sérhæft sig í sértækum kennsluúrræðum og námstækni. Báðar leggja þær áherslu á tilfinningalega vellíðan í sínum nálgunum. Þær hafa skapað sér sérstöðu í að vinna með börnum og ungmennum sem eiga erfitt uppdráttar í skólakerfinu, hvort sem er náms-, tilfinninga- eða hegðunarlega séð.  

Sérstaða Sigursetursins er sérfræðiþekking og áratuga reynsla þeirra Önnu og Jóhönnu í að vinna með börnum og ungmennum sem glíma við sértækan og fjölþættan vanda. Þær veita persónulega þjónustu sem miðast við uppbyggingu einstaklinga til framtíðar. Okkur hlakkar til að heyra frá þér!

 

 Sigursetrið – lítil skref, stórir sigrar!

Jóhanna Helgadóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Jóhanna útskrifaðist árið 2004 með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræði frá Kennaraháskóla Íslands. Hún hafði sjálf glímt við ákveðna erfiðleika í tengslum við nám, sjá viðtal við Jóhönnu hér https://www.vf.is/mannlif/vard-thatttakandi-i-stad-ahorfanda 

Hún var staðráðin í því sem kennari að einbeita sér að því að leita allra mögulegra leiða til þess að koma á móts við nemendur sem áttu erfitt námslega. Og ekki nóg með það, heldur mjög fljótlega eftir að Jóhanna byrjaði að kenna fór hún líka að aðstoða nemendur sem stóðu höllum fæti námslega með heimanámsþjálfun utan skóla. Jóhanna trúir því að ALLIR GETI LÆRT! Reynsla hennar sýnir að það sem til þarf er að finna réttu nálgunina og aðferðina sem hentar hverjum fyrir sig og fylgja námsferlinu fast eftir. Á þann hátt getur viðkomandi byggt sig upp, hægt og rólega, með smáum sigrum sem leiða til betri sjálfstrausts og árangurs í námi.

 

Jóhanna hefur yfir 20 ára reynslu af starfi með börnum, ungmennum og foreldrum þeirra. Hún starfaði í skátahreyfingunni í mörg ár; sem skáti, dróttskátti, skátaforingi, sveitarforingi og í stjórn skátafélagsins Víkverja í Njarðvík. Hún hefur starfað í leik-, grunn- og framhaldsskóla. Sinnt almennri kennslu, sérkennslu, sértækri íhlutun, umsjónarkennslu, deildarstjórn, verkefna- og teymisstjórnun, kennslu- og námsráðgjöf. Jóhanna er sjálfstætt starfandi kennsluráðgjafi.  

Haustið 2017 útskrifaðist Jóhanna með MS gráðu í Mannauðsstjórnun frá Viðskiptafræðideild Háskóla Íslands. Áhugi Jóhönnu á því sviði er í innleiðingu breytinga í skólastarfi og í skólakerfinu sjálfu, eins á nýbreytni og nýsköpun í skólastarfi. Hún hefur komið að og stýrt innleiðingu breytinga í leik-, grunn- og framhaldsskóla, sem verkefnastjóri þróunarverkefna, með góðum árangri. Í gegnum störf sín í menntakerfinu til margra ára upplifir Jóhanna að það sé þörf á því að til sé þjónusta fyrir foreldra og forráðamenn barna og ungmenna sem hægt er að leita til þegar upp kemur grunur um vanda og þörf er á úrræði í tengslum við hann, til að mynda í formi ráðgjafar, í snemmtækri íhlutun (snemmbær stuðningur), í sértækum kennsluúrræðum og í ráðleggingum um hvernig eigi að fóta sig áfram í að óska eftir aðstoð innan skólakerfisins þegar aðgengi að þjónustu og/eða úrræði hefur ekki verið tryggt fyrir barnið. Af þeirri ástæðu verður Sigursetrið til!

12793_011_edited.jpg

Anna D Hermannsdóttir

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

 

Anna útskrifaðist árið 2005 með B.Ed. gráðu í grunnskólakennarafræði frá Kennaraháskóla Íslands samhliða sjúkrahúslegu, vinnu og uppeldi tveggja barna sem eru með dæmigerða einhverfu og fylgiraskanir. Ein meginástæða þess að Anna sótti sér menntunar í kennslu var með hag eigin barna að leiðarljósi. Anna áttaði sig fljótt á því að börnin hennar þyrftu á meiri stuðningi að halda í námi og í félagslegum aðstæðum vegna þess vanda sem birtist vegna greininga þeirra, en þau eru meðal annars greind með dæmigerða einhverfu, Asperger heilkenni, kvíðaröskun, þunglyndi og sjálfsvígshugsanir sem hafa leitt til mikillar sjálfvígshættu (að Anna hefur þurft að vera til taks allan sólarhringinn í vöktun yfir eigin barni). Eins er um að ræða þroskaskerðingu, háa greindavísitölu, félagslega veikleika, hegðunarvanda og að auki er annað barn Önnu langveikt.

 

Með kennaranáminu var Anna í stakk búin til þess að veita börnum sínum kennslu til viðbótar þeirri kennslu sem börnin fengu í skólanum. Anna hóf sinn kennsluferil samhliða námi á unglingastigi sem heimilisfræðikennari. Þar sem bakgrunnur Önnu liggur í matvæla- og hótelrekstri átti starfið mjög vel við hana og hún gat nýtt sína styrkleika í því. Þegar leið á varð hún þó fljótt vör við það að lítið var um leiðir til þess að koma á móts við sérþarfir barna í skólakerfinu. Unglingar sem áttu erfitt uppdráttar í skólakerfinu voru kallaðir vandræðaunglingar og fáir vildu taka að sér kennslu slíkra ungmenna. Fyrir Önnu var þetta aðeins hugtak sem notað var til þess að flokka ungmenni sem áttu erfitt uppdráttar í skóla. Upplifun Önnu var sú að fáir vildu vita af þeim og enn færri vildu komast til botns í því hver væri í raun og veru ástæðan fyrir því að þeir sýndu af sér hegðun af því tagi sem mætti kallast til vandræða. Anna tók því frumkvæði sem fólst í því að bjóða upp á sértíma í heimilisfræði fyrir þennan hóp ungmenna með það að markmiði að kenna þeim að elda sér sinn eigin mat og sjá um sig sjálf á þeim vettvangi. Anna trúði því að það gæti leitt til betri líðan og aukins sjálfstrausts unglinganna, sem það svo gerði. Þegar fram liðu stundir varð málaflokkur barna og unglinga með greiningar og ákveðinn taugaþroskavanda Önnu afar kunnugur. Hún áttaði sig á því að börn og ungmenni í slíkri stöðu stóðu mjög höllum fæti í skólakerfinu og lítið var um sérfræðiþekkingu á þeim vanda sem blasti við kennurum og foreldrum. Það upplifði hún einnig mjög sterkt sem foreldri tveggja barna með fjölþættan vanda. Anna áttaði sig á því að kennaramenntunin ein og sér myndi engan veginn duga til þess að ná utan um þann vanda sem blasti við hennar eigin börnum. Úr varð að Anna ákvað að leita sér frekari menntunar og sérhæfingar á þessu sviði.

 

Anna hafði þegar lært tákn með tali sem hentar vel börnum með sértæka málörðugleika. Slíkir erfiðleikar fylgdu hennar eigin börnum og var notkun þess stór hluti af uppeldi barna hennar. Þegar börnin hennar fengu hverja greininguna á fætur annarri ákvað Anna að nema hvað greiningar þýða almennt fyrir utan staðlaða kóða hjá Ráðgjafa og greiningastöð ríkisins. Anna leitaði svara við spurningum á borð við: Hvað fylgir því að fá greiningu? Hvað þýðir það fyrir einstaklinginn sjálfan og foreldra hans? Anna hélt áfram að styrkja sig sem foreldri og kennari með því að afla sé sérfræðiþekkingar hjá Ráðgjafa og greiningastöði ríkisins og sótti í raun öll námskeið á þeirra vegum til þess að vera betur í stakk búin til þess að takast á við vanda sinna eigin barna og vanda þeirra barna sem hún kenndi. Þar sótti hún námskeið í eftirfarandi flokkum: Ungmenni með einhverfu og önnur þroskafrávik. Geðraskanir hjá börnum með þroskaraskanir. Geðrasakanir hjá börnum og unglingum með þroskaraskanir. Ekki dugði þetta Önnu. Hún vildi vita meira og með hag barna sinna fyrir brjósti fór hún til Svíþjóðar að læra Afbrotasálfræði. Hún útskrifaðist þaðan árið 2009 með diplómu í Criminology. Með náminu varð Önnu ljóst það úrræðaleysi sem er í íslensku skólakerfi á þessum vettvangi, auk þess að almenn úrræði skorti fyrir foreldra og börn og ungmenni, að sama skapi vantaði menntun á þessu sviði á Íslandi. Loksins, á vettvangi afbrotasálfræðinnar, kom sá skilningur sem hún hafði leitað eftir: Af hverju eru greiningar áhættuþáttur í lífi barna og unglinga?

 

Anna lét þó ekki þar við sitja heldur sótti einnig nám í Áhættuhegðun, greiningum og fíknum á vegum Endurmenntunar Kennaraháskóla Íslands árið 2011. Í dag hefur Anna hátt í 30 ára reynslu af starfi með börnum og ungmennum sem hafa glímt við bæði sértækan- og fjölþættan vanda. Eins hefur Anna reynslu til margra ára í ráðgjöf til foreldra og forráðamanna barna og ungmenna sem glíma við vanda á þessu sviði. Hún hefur einnig sérhæfingu, menntun og reynslu til margra ára í að veita og beita úrræðum á sama sviði. Anna veit og skilur það núna af eigin reynslu, af sinni sérfræðiþekkingu og menntun, að það er ekki nóg að hafa aðeins greiningu barns til hliðsjónar þegar unnið er með úrræði og eftirfylgni. Það þarf einnig að vita forsögu og fjölskyldusögu einstaklingsins. Ef rýnt er í alla þessa þætti á heildstæðan hátt er hægt að finna svör við því hvers vegna þessi viðkvæmi hópur er oft á tíðum afskiptur og á erfitt uppdáttar í námi og í daglegu lífi. Með slíkri vinnu er hægt að taka saman aðgerðir sem hægt er að vinna með og þannig ná framförum í námi og í daglegu lífi, bæði í formi snemmtækrar íhlutunar (snemmbærs stuðnings), sem sagt áður en vandi gerir vart við sig eða þegar grunur liggur fyrir um vanda. Eins í formi inngripa eftir að vart verður við vanda eða ef greining á vanda hefur þegar farið fram en úrræði í kjölfarið er ábótavant. Af þeirri ástæðu verður Sigursetrið til! Anna getur rýnt í vandann, veitt ráðgjöf, leiðbeint og lagt til úrræðin.

 

Anna hefur haldið áfram að sérhæfa sig á þessu sviði og sótt fjöldann allan af námskeiðum og námsleiðum til þess að styrkja stöðu sína á þessum vettvangi, meðal annars stundaði hún nám í Jákvæðri sálfræði á vegum Endurmenntunar Háskóla Íslands. Sótt námskeið um áhrif áfalla og fíknar á fjölskyldur sem Norræna fagráðið hefur staðið fyrir. Hún hefur sérstaklega einbeitt sér að því að fræðast um fjölþættan vanda barna og ungmenna þegar kemur að meðferðarúrræðum. Hún hefur starfað í leik- og grunnskóla. Starfað sem deildarstjóri í hegðunar- og námsveri, deildarstjóri námsvers, starfað sem sérkennari, faggreinakennari og umsjónarkennari. Hún átti frumkvæði að, innleiddi og stýrði þróunarverkefni um meðferðarhunda í skólastarfi, þar sem niðurstaða verkefnisins sýndi með óyggjandi hætti jákvæð áhrif á nám barna með náms- og hegðunarerfiðleika. Í dag starfar hún sem sjálfstætt starfandi sérfræðingur í greiningum og íhlutun.

12793_004_edited_edited_edited.jpg
bottom of page